sunnudagur, mars 27, 2005



 

Gleðilega Páska!!!

Jæja þá er búið að fara fyrstu Langeyjarferðina 2005. Pabbi og Kjartan lögðu tonn af keðju þvert yfir "innsiglinguna", Snorri lagði rafmagn upp að húsinu og við hin reyndum að hjálpa. Við vorum sumsé 9, ég, Heiðbjört, Viðar, Eggert brósi, Valdimar, afi, pabbi, Kjartan og Snorri. Við fórum útí Langey á fimmtudeginum 24. og komum í gær. Við vorum rosalega heppin með ferðaveður báðar leiðir því inná milli var rok og rigning. Það sprakk á kerrunni sem Kjartan dró á leiðinni útí ey en í henni var keðjan þunga. Það tafði okkur samt ekkert svo mikið af því að á meðan við biðum brunuðu Snorri, afi og Valdimar útí Stykkishólm og gátu klárað það sem þurfti að gera áður en við legðum í hann á bátnum. Á föstudeginum kom fólk í kaffi frá Hnúki, Pétur og kærastan hans sem heitir Anna að mig minnir. Hún er víst í Guðríðarætt en sendi ekki mynd í bókina sem er nottla hneyksli!! ;) Ööööööööö... já meira var það nú eiginlega ekki. Þetta var fín ferð en ég hefði viljað vera lengur. Hef stór plön um að fara aftur í maí ef eitthvað verður úr þessari Hvítasunnuferð sem hvíslað er um og svo reyna að skreppa allavega eina helgi í júní. Hvað með ykkur??

Kveðja
Hófí

laugardagur, mars 26, 2005



 

Páskafærsla

Komiði nú öll blessuð og sæl. Á morgun er páskadagur og vildi ég bara nota tækifærið og óska ykkur öllum gleðilegra páska. Langeyjarfarar hafa það víst bara fínt og fengu gesti frá Hnúksnesi í gær. Gaman að því. Sjálf hef ég það bara fínt en þið getið lesið um ófarir mínar á blogginu mínu (tengill hér til vinstri). Ég er búin að ganga frá tjónaskýrslu og þannig dæmi en nú þarf pabbi bara að kvitta og fara með hana til VÍS og allt það. Jónas var svo elskulegur að hjálpa mér með skýrsluna því ég og mamma bara kunnum ekki svona hluti. Annars eru Jónas og Elsa Nína í skýjunum því Jónas vann RISAPÁSKAEGG í Kringluleiknum góða. Mér varð hálf bumbult við tilhugsunina og ég held þeim líka. Vona samt að engum verði bumbult af súkkulaði á morgun...enda svo miklir matgæðingar í Langeyjarfamilíunni.

Hrakfallabálkurinn Ingrid Örk

mánudagur, mars 21, 2005



 

Hólí mólí...

Ok. Leyniorðið verður víst að vera 6 stafir. Hmmmmm..... Allt í lagi. Nýja leyniorðið er þá nafnið á bátnum sem við notum til að sigla út í ey. Svo má alveg breyta því aftur seinna. Ég er bara þreytt og hugmyndasnauð...

By the way, Snorri, af hverju koma svona 3 doppur fyrir framan headerinn hjá þér en ekki hjá okkur hinum?? Og hann er í öðru fonti líka!! :)

Hófí



 

Gaman gaman!

Rosalega er ég nú ánægð með þessi viðbrögð við hugmyndinni minni! :) Það eru fleiri búnir að gera athugasemdir við það að ég hafði passwordið á síðunni þannig að ég ætla núna að senda ykkur nýtt leyniorð þó svo að ég sjái nú sussum ekki að það skipti máli þó það standi hérna. Ég stillti það þannig að síðan er ekki með á neinum listum yfir síður hjá blogger.com og þess vegna væri alger tilviljun ef einhver óviðkomandi rambaði hingað en allur er varinn sussum góður.

Ég er líka voða fegin að sjá að þið sem hafið komið hingað hafið lagað sidebarið því ég kann ekkert á það og ég hvet þá sem eru jafn fáfróðir og ég að taka það bara fram í blogginu sínu ef þeir vilja fá eitthvað td. tengla þarna til hliðar og þá geta þeir sem meira kunna kannski reddað því.

Það er annars að frétta að ég og pabbi ætlum út í Langey og sennilega Heiðbjört og Viðar líka. Annars eru allir eitthvað voða uppteknir. En það stefna líka flestir á Langeyjarferð um Hvítasunnuna skilst mér.

Ha! Ég var að fá frábæra hugmynd. Þar sem pósturinn sem ég er að nota er eitthvað bilaður og ég nenni ekki að vera að standa í því að senda hverjum og einum leyniorðið þá ætla ég að hafa þetta svona: nýja leyniorðið er nafnið á folanum sem var alltaf að bíta og djöflast í hryssunum. Vita þetta ekki allir?? :)

Hófí



 

Smá fikt

Farið út. Bara að fikta í backgrounds o.fl. Var að skoða að setja aðra mynd í headerinn en þessar þrjár kommur. Maður þarf að setja niður alla browserglugga til að breytingar komi fram. Freka dúpíus.

Er eitthvað skrýtið í Mac núna?

Kveðja, Snorri Pétur.



 

...og eitt enn...

Ætlaði líka að segja ykkur að það er hægt að taka út þetta kommentakerfi, enda er það alveg glatað og setja í staðin HaloScan. Ef einhver nennir þessu er hann velkomin til þess. Ég nenni því reyndar ekki alveg núna en ef enginn gerir þetta skal ég kannski laga þetta. haloscan.com, held ég.

Ingrid Örk



 

Halló

Jæja rugludallar! Viljiði taka myndina í burtu úr backgrounds!!
Svo er bara að muna að nota html mál sem allar tölvur skilja, líka makkar. Það er víst stundum eitthvað vesen með þetta html mál. En ef allir fara vel eftir leiðbeiningum blogger ætti þetta að vera í lagi.

Ingrid Örk



 

Annar viðvaningur

Góð hugmynd að hafa svona hópblogg. Spurning hvort það er ráð að hafa notendanafn og lykilorð á síðunni sjálfri (hér skrifaði ég þessi íslensku löngu nöfn eingöngu til þess að mamma geti lesið þetta). Hólmfríður, viltu ekki breyta lykilorðinu og senda svo fólki það í pósti? Þá væri ráð að senda fólki smá leiðbeiningar, ég fattaði t.d. ekki hvar ég ætti að fara inn og hvort ég mætti taka út HTML-kóðann af síðunni o.s.frv.

Nú er skattframtalsfresturinn að renna út og í gær var maður að gera skýrsluna "kaup og sala eigna" þar sem Fremri-Langey var keypt. Ekki leiðinlegt það.

Á miðvikudaginn stefnum við á að fara út í Langey, ég, pabbi, Kjartan og kannski Gísli ásamt þeirra niðjum og leggja rafmagn, draga rafstreng frá rafstöðvarhúsinu upp í hús og undirbúa bryggjuna. Við tökum kannski með okkur eitthvað af þessum 600 metrum og þremur tonnum af keðju sem liggur við Norðurtúnið sem ætluð er í bátalægi í vognum og út við Stóru-Boðalsey ásamt festingar í bryggjuna. Þá tökum við björgunarbátinn suður til yfirhalningar.

Lilja ætlar að teikna Langeyjarhúsið í AutoCad til að við getum sé það í þrívídd og flogið í kringum það og hannað inni í það eða í kringum það og lagt rafmagn og hitalagnir og líka bara til skemmtunar.

Svava María er komin með annað netfang (nei, hún er ekki hætt og hitt netfangið er virkt en bara er svo hrikalega langt), svavamaria@internet.is.

Áðan flaug dúfa á rúðuna hjá okkur í vinnunni og fálki kom í kjölfarið og dró dúfuna undir bíl og byrjaði að drepa hana. Þrír hrafnar sveimuðu yfir og biðu átekta. Eftir nokkurn tíma flaug hann undan bílnum og hrafnarnir réðust á hann hver á eftir öðrum og ég missti af þeim yfir Laugardalshöllinni. Magnað. Nettur Langeyjarfílingur fyrir utan gluggann á Suðurlandsbrautinni.

Hvernig bætir maður myndum og viðhengjum hérna inn? Hér er vísað í mynd á norlur.net:

Hér er linkur á myndavélina í Hólminum. Nú er blankalogn og dumbungsveður, frábært þangsláttuveður.

Hér er svo linkur (vefkrækja ef þú skilur það eitthvað betur mamma) á sjávarfallasíðuna hans Kjartans fyrir Stykkishólm. Þið getið valið aðra staði í heiminum (t.d. Flatey eða Reykjavík) hérna.

Nóg í bili,
Snorri Pétur.



 

Viðvaningur að blogga

Hæ hef aldrei gert svona áður.
Ætlaði bara að láta ykkur vita að ég er ólétt og við unnum 17 millurnar í Lottóinu um helgina þannig að við fjölskyldan erum að flytja til útlanda í sumar.

Nei nei bara að grínast.
Bestu kveðjur, Stenna.

sunnudagur, mars 20, 2005



 

Langeyjarfjölskyldubloggið mikla!!!

Nú getu við orðið almennilega tölvuveik. Ég ákvað að prófa að setja upp þetta blogg fyrir fjölskylduna til að athuga hvort það gæti ekki orðið til þess að við værum í meira sambandi. Reyndar var upphaflega pælingin sú að búa til bloggsíðu sem margir gætu notað svo að ég gæti alltaf lesið eitthvað nýtt og skemmtilegt blogg frá öðrum þegar ég hef ekkert að gera... ;) En sumsé, nú ætti að vera leikur einn að skipuleggja matarboð eða spilakvöld eða bara að halda uppi tilkynningaskyldu ef maður er að fara til útlanda eða er óléttur eða vann í lottóinu eða etc.

Til að komast inná bloggið þarf að fara inná blogger.com og skrá sig inn undir notendanafninu langey og leyniorðið er ******. Til að skrá okkur inn þurfti ég að skrá meil og það stofnaði ég á hotmail.com og það er langey_@hotmail.com. (það er _ á milli langey og @)

Það er auðvitað engin skylda að taka þátt en þar sem svo margir eru nettengdir heilu og hálfu dagana ættum við nú að geta þetta, ungir sem aldnir! Til að byrja með langar mig að stinga uppá að við komum því á hreint hvaða e-meil adressur fólk er að nota þessa dagana því mér sýnist sem margar þeirra séu orðnar ansi úreldar. Þannig að ef þið sjáið ykkur fært um að skrifa eitthvað látið þá endilega meilið ykkar fylgja með. E-meil adressan sem ég nota mest er hog1@hi.is.

Annars er ég bara spennt að sjá hvað gerist.

Kær kveðja,
Hófí

ps. það er bannað að edita gamla pósta til að laga stafsetningavillur!!!